top of page

Þegar hvolpurinn kemur heim

Það er mikilvægt að hafa í huga hvernig líf hvolpsins var áður en hann kom inn á heimilið þitt. Hann hafði leiðtoga, móður sem sá um hann, gaf honum næringu og veitti honum öryggi.

Hún agaði hann af staðfestu og yfirvegun þegar hann sýndi óæskilega hegðun og hvolpurinn lærði þannig reglur og takmarkanir. Hvolpur lærir því að fylgja leiðtoga sem agar af staðfestu og yfirvegun.

Hvolpurinn kannar umhverfi sitt með munninum og leikur við systkini sín með munninum og lærir að þekkja mörkin hversu harkalega má leika. Hann lærir mikið gegnum leik við aðra hvolpa og því er mikilvægt að hvolpurinn fari ekki á nýtt heimili fyrr en 8 vikna.

Sértu með hvolp sem fór að heiman áður en hann náði 8 vikna aldri er mikilvægt að hann fái að leika við aðra hvolpa reglulega til að byggja upp félagshæfni sína innan um aðra hunda. Sama gildir þó um alla hvolpa, en þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir hvolpa sem fara snemma að heiman.

Þegar hvolpurinn hittir þig og fer að umgangast þig skynjar hann hjá þér hvort þú ert leiðtogaefni eða ekki, og með því að verða leiðtogaefni þarftu fyrst og fremst að temja þér þolinmæði, staðfestu og yfirvegun, og einnig að vera búin(n) að ákveða reglur og tak markanir sem hvolpurinn á að fara eftir hjá þér.

Þegar þú ákveður reglunar þarftu einfaldlega að hugsa „hvernig vil ég að hundurinn minn sé þegar hann er orðinn stór“ og byrja strax að leggja grunninn að því. Mikilvægt er að muna að hvolpurinn er vanur aga frá yfirveguðum foringja og því óþarfi að skamma eða öskra á hvolpinn. Hann þarf hins vegar að finna að þegar þú segir nei, fylgir þú því staðfastlega eftir þannig að hvolpurinn lærir að þú meinar það sem þú segir. Það þarf þó aldrei að gerast með æsingi eða ofbeldi, heldur á þann hátt að hundurinn lærir að virða óskir þínar því þú ert staðföst/fastur og þolinmóð(ur) gagnvart honum.

Reiði, skammir, öskur og að slá, sparka í eða taka harkalega í hvolpinn er allt merki til hvolps ins um að þú sért ekki í andlegu jafnvægi og því ekki nægilega góður leiðtogi. Þú vilt að hvolpurinn fylgi þér vegna þess að hann virðir þig og treystir, ekki vegna þess að hann er hræddur við þig. Með neikvæðri nálgun við hvolpa getum við mannfólkið skapað hrædda og stressaða hunda.

Við getum auðvitað gert mistök. Við getum verið í slæmu skapi og verið pirruð við hvolpinn eða skammað hann fyrir eitthvað sem hann skilur ekki. Það góða við hunda er að þeir lifa í núinu og við getum byrjað strax í dag að æfa góða, staðfasta en yfirvegaða fram komu við hvolpinn til að byggja upp traust og virðingu. Við þurfum að leyfa okkur að gera mistök til þess að læra af þeim og ná árangri. Við getum orðið pirruð og jafnvel sár við hvolpinn, en þá er málið að anda djúpt og skoða hvað má betur fara og hvernig við förum að því, auk þess að muna eftir öllu því jákvæða sem hvolpaskottið býr yfir. Við ein blínum oft á það neikvæða og látum allt það jákvæða fram hjá okkur fara.

Heimild: Leyndarmál hundaþjálfunar eftir Heiðrúnu Villu


bottom of page