Þar sem mannfólkið heilsast alltaf með augnsambandi, snertingu og orðum heldur það oft að þannig eigi einnig að heilsa hundi. Þetta er gott dæmi um hvernig við persónugerum hunda. Við höldum að það sé bara kurteisi að heilsa upp á hund með því að horfa á hann, kannski tala við hann og beina hendinni að honum. Hundar nota hins vegar nefið á undan öllu öðru og geta því tekið augnsam bandi, snertingu og orðum sem ógnun. Það er alveg sama hvernig hundurinn er, allir hundar vilja fá að þefa fyrst og ákveða svo hvort þeir vilji eitthvað með þig hafa eða ekki. Leyfðu honum að þefa af þér og ekki rétta höndina fram heldur stattu kyrr í smástund. Hundurinn treystir þér betur ef þú sýnir honum enga ógnun við fyrstu kynni og vingast frekar við þig ef þú hunsar hann til að byrja með. Sumir hundar eru mjög vingjarnlegir, aðrir óöryggir og fara jafnvel í ofuræsing við að hitta nýja manneskju. Það að hunsa hundinn virkar vel í öllum þessum tilfellum til að fá hann í yfirvegaða og kurteisa hegðun.
Ef þig langar að nálgast hund sem þú þekkir lítið er ein mikilvæg regla sem hafa ber í huga: Láttu hundinn koma til þín. Það er ekki gott að fara að hundinum, beygja sig yfir hann og setja höndina á hausinn á honum. Margir hundar urra eða glefsa í höndina við þessa nálgun enda getur þetta verið mikil ógnun í augum hunda sem eru óöryggir varðandi ókunnuga og það er mjög eðlilegt að svo sé. Láttu hundinn koma til þín þó hann þurfi ekki að taka nema nokkur skref til þess. Þannig er hann að sækjast eftir félagsskap þínum. Ekki þrengja að hundi og ekki koma alveg að honum, vertu frekar svolítið frá og bjóddu honum að koma með því að lækka líkamsstöðu þína. Ef hann kemur þá er það gott mál, ef ekki er betra að láta þann hund í friði.
Því er gott að venja sig á þegar þú hittir hund að horfa ekki á hann, snerta ekki né tala við hann fyrr en hann er hefur þefað af þér og er orðinn rólegur nálægt þér. Ekki ganga alveg upp að hundinum heldur leyfðu honum að koma til þín fyrst og þefa af þér. Þegar hann er búinn að þefa og er rólegur er í lagi að snerta hann ef eigandinn leyfir það, hundurinn er jú á hans ábyrgð. Ef þú ert með hund og fólk kemur og vill klappa honum skaltu biðja um að leyfa honum að þefa fyrst. Ef þér er illa við það að láta einhvern klappa hundinum þínum skaltu segja nei eða til dæmis: Nei, hann er í þjálfun núna. Fólk skilur það yfirleitt vel. Ef þú sérð að hundurinn þinn vill ekki hitta manneskju eða annan hund skaltu ekki þvinga hann til þess. Stundum þarf að virða það sem hundurinn vill fremur en þá sem eru í kringum hann.
Afar mikilvægt er að skilja hvernig á að hitta hund rétt, kenna börnum að vaða ekki í ókunnuga hunda og hvernig þau eiga að kynna sig á réttan hátt fyrir hundum sem þau þekkja. Ef barnið er æst og ef það veður beint í hund getur hann brugðist illa við, sem er eðlileg hegðun en endar oft illa fyrir hundinn.
Að beygja sig yfir óöruggan hund eða setja höndina yfir hausinn á honum í þeim tilgangi í að klappa honum getur valdið því að hundur sjái ógnun í því og glefsar. Það er á ábyrgð hundaeiganda að þekkja hundinn sinn og koma honum ekki í aðstæður þar sem hann getur skaðað aðra, sérstaklega ef hann er viðkvæmur fyrir áreiti af þessu tagi.
Heimild: Leyndarmál hundaþjálfunar eftir Heiðrúnu Villu